Austurríkismaðurinn Matthias Mayer varð í morgun Ólympíumeistari í risasvigi karla í annað skiptið í röð þegar hann krækti í gullverðlaunin á vetrarólympíuleikunum í Peking eftir tvísýna keppni.
Mayer, sem er 31 árs gamall, hefur þar með hreppt gull á þrennum leikum í röð því hann sigraði í bruni í Sotsjí árið 2014 og síðan í risasviginu í Pyeongchang fyrir fjórum árum.
Í nótt sigraði hann á 1:19,94 mínútu og var aðeins 4/100 úr sekúndu á undan Bandaríkjamanninum Ryan Cochran-Siegle sem fékk tímann 1:19,98 mínúta, en í risasviginu fara keppendur aðeins eina ferð.
Bronsverðlaunin fóru síðan til Noregs en Aleksander Aamodt Kilde varð þriðji á 1:20,36 mínútu.
Þrettán keppendur af 47 náðu ekki að ljúka keppni.