Fimmtán ára féll á lyfjaprófi og verðlaunaafhendingu frestað

Hin 15 ára gamla Kamila Valieva fór á kostum í …
Hin 15 ára gamla Kamila Valieva fór á kostum í keppninni í Peking en óvissa ríkir vegna lyfjaprófsins. AFP

Fulltrúar Alþjóða ólympíunefndarinnar neita að gefa neitt upp varðandi mál hinnar fimmtán ára gömlu Kamilu Valievu sem er sögð hafa fallið á lyfjaprófi fyrir vetrarólympíuleikana í Peking.

Valieva var í sigurliði Rússa í liðakeppninni í listhlaupi á leikunum á mánudaginn og sýndi þar fyrsta fjórfalda stökk sem kona hefur framkvæmt á Ólympíuleikum.

Verðlaunaafhending fyrir keppnina hefur enn ekki farið fram og Alþjóða ólympíunefndin, IOC, neitar að svara spurningum um málið og segir ástæðu þess lagalegs eðlis.

Rússneskir fjölmiðlar sögðu í gær að Valieva hefði á lyfjaprófi sem var tekið fyrir tveimur mánuðum og reynst vera með lítið magn af trimetazidine í blóðinu en það er lyf sem vanalega er tekið við brjóstverkjum.

„Lyfið trimetazidine hjálpar engum íþróttamanni á nokkurn hátt. Það fannst í einu sýni í desember, í minnsta mögulega mæli. Það hefur hvergi komið fram í sýnum frá henni fyrr eða síðar," skrifaði rússneski íþróttafréttamaðurinn Vasili Konov hjá sjónvarpsstöðinni Match-TV á Twitter.

Kamila Valieva leikur listir sínar í Peking.
Kamila Valieva leikur listir sínar í Peking. AFP

„Það er mjög óvenjulegt að jákvæðu sýni sé skilað eftir að keppni er lokið og áður en verðlaunaafhending fer fram. Vanalega er íþróttamanni í slíkri stöðu umsvifalaust vísað úr keppni en það gerðist ekki hér," sagði David Howman, fyrrverandi framkvæmdastjóri WADA, alþjóðlega lyfjaeftirlitsins, við fréttastofu Reuters. Eina tilvikið sem hann myndi eftir væri Caster Semenya, hlaupari frá Suður-Afríku, á heimsmeistaramótinu í frjálsíþróttum.

„Trimetazidine er ekki lyf sem þú tekur óvart, þér væri ekki ávísað því að ástæðulausu, og maður myndi ekki búast við því að því væri ávísað á fimmtán ára ungmenni. Það eru mikil vonbrigði og mjög miður að Rússar skuli enn greinast jákvæðir á lyfjaprófum á stórmótum eftir allt það sem landið hefur gengið í gegnum," sagði Howman ennfremur og vísaði til bannsins sem rússneskt íþróttafólk þarf að búa við en það getur ekki keppt undir fána Rússlands vegna víðtæks lyfjamisferlis.

Talsmaður IOC, Mark Adams, bað fjölmiðla um að sýna þolinmæði og skilning en reynt væri að vinna eins hratt í málinu og mögulegt væri til að finna út með verðlaunasætin. 

Valieva mætti á æfingu í Peking í dag en neitaði að ræða við fréttamenn að henni lokinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert