Therese Johaug frá Noregi varð ólympíumeistari í 10 kílómetra göngu kvenna á vetrarólympíuleikunum í Peking í dag eftir gríðarlega harða keppni við Kerttu Niskanen frá Finnlandi.
Aðeins 4/10 úr sekúndu skildu þær að í lokin en Johaug gekk tíu kílómetrana á 28:06,3 mínútum og Niskanen á 28:06,7 mínútum.
Bronsverðlaunin fékk síðan Krista Parmakoski frá Finnlandi sem gekk vegalengdina á 28:37,8 mínútum.
Johaug, sem er 33 ára gömul, hefur þar með fengið tvenn gullverðlaun á leikunum en hún sigraði einnig í 15 kílómetra göngu. Áður hafði hún fengið silfur og brons á leikunum í Sotsjí árið 2014 en Johaug hefur 14 sinnum unnið gullverðlaun á heimsmeistaramótum undanfarin tíu ár og vann allar fjórar greinar sínar á heimsmeistaramótinu 2021.
Hún missti af síðustu Ólympíuleikum eftir að hafa fallið á lyfjaprófi haustið 2016.