„Þetta eru bara fangabúðir, það er ekkert flóknara en það,“ sagði skíðamaðurinn Sturla Snær Snorrason í samtali við mbl.is en hann er nú staddur á svokölluðu kórónuveirusjúkrahúsi í Peking í Kína eftir að hafa greinst með kórónuveiruna síðastliðinn laugardag.
Sturla Snær er hluti af íslenska hópnum sem tekur þátt á Vetrarólympíuleikunum í Peking en hann á að keppa í stórsvigi karla á sunnudaginn kemur, hinn 13. febúar, og loks svigi, sem er hans sterkasta grein, hinn 16. febrúar.
„Ég tók reglubundið kórónuveirupróf áður en ég fór á æfingu á laugardaginn. Um leið og ég var mættur upp í fjall fann ég fyrir slappleika og beinverkjum. Ég var hálf máttlaus alla æfinguna og þegar henni lýkur fer ég strax upp á herbergi í Ólympíuþorpinu.
Nokkrum klukkustundum síðar er bankað á hurðina hjá mér og þar standa einkennisklæddir öryggisverðir og tjá mér að ég sé smitaður af kórónuveirunni. Ég er svo fluttur beint af hótelinu á þennan spítala sem er samansetttur af einhverskonar gámaeiningum,“ sagði Sturla.
Sturla Snær var fluttur með hraði úr Ólympíuþorpinu á kórónuveirusjúkrahúsið í Peking.
„Ég skildi í raun ekkert hvað þeir voru að segja við mig þegar þeir bönkuðu fyrst upp á hjá mér. Það talar enginn ensku hérna og það er stuðst við einhverskonar snjallsímaforrit í öllum samskiptum sem á að vera í hlutverki túlks en það virkar erfiðlega oft á tíðum.
Ég fór beint upp í sjúkrabíl af hótelinu og ég held að hann hafi keyrt á sirka 200 kílómetrahraða á klukkustund í átt að Peking með öll blikkljósin og sírenurnar í botni. Ég hélt satt best að segja að ég væri við dauðans dyr þarna á tímabili, miðað við það hvernig bílstjórinn keyrði.“
Margir keppendur á leikunum hafa kvartað sáran yfir aðstæðunum á kórónuveirusjúkrahúsinu í viðtölum við erlenda fjölmiðla.
„Ég er innilokaður í einhverjum gám sem er sirka átta fermetrar. Hér er ekkert nema bara sjúkrarúm og svo salerni. Það er ekkert sjónvarp hérna og einu samfélagsmiðlarnir sem virka í Kína eru Snapchat og Tinder. Eftir fimm daga er orðið ansi þreytt að rúlla í gegnum þessa miðla daginn út og inn og ég get lofað þér því að það fyrsta sem ég geri þegar ég kemst héðan út er að eyða Snapchat úr símanum.
Maturinn hérna er satt best að segja ógeðslegur og alltaf ískaldur þegar hann kemur loksins. Ég hef ekki átt samskipti við nokkurn mann hérna og hausinn er orðinn ansi grillaður. Það eru engar streymisveitur eða neitt þannig að ég hef ekkert til að horfa á. ÍSÍ fékk leyfi til þess að veita mér aðgang að Ólympíurásinni í símanum mínum þannig að ég gæti fylgst með leikunum en internetið á spítalanum höndlar ekki rásina.“
Sturla Snær losnar úr einangrun á morgun og þá tekur við viku sóttkví í Ólympíuþorpinu.
„Heilsan er orðin nokkuð góð en ég var ennþá slappur í gær. Ég er hins vegar á réttri leið en á sama tíma reyndi ég að gera einhverjar æfingar í morgun til þess að halda mér við. Ég entist ekki lengi og var í raun bara alveg búinn á því þegar ég var búinn að hita upp. Ég losna héðan á morgun og þá tekur við viku sóttkví en ég má hins vegar keppa á leikunum sem er jákvætt.
Markmiðin fyrir leikana hafa klárlega breyst eftir þessa uppákomu og núna er ég fyrst og fremst að hugsa um að geta staðið í báðir lappir niður brautina, ef maður hefur þá kraftana í það. Það hefur gengið á ýmsu í hausnum á manni undanfarna daga en ég er staðráðinn í að gera mitt allra besta í báðum greinum,“ bætti Sturla Snær við í samtali við mbl.is.