Var bara að grínast

Therese Johaug með gullverðlaunin í dag.
Therese Johaug með gullverðlaunin í dag. AFP

Margir gripu það á lofti þegar skíðagöngudrottningin Therese Johaug frá Noregi sagði eftir sigurinn í tíu kílómetra skíðagöngunni á Vetrarólympíuleikunum í Peking í morgun að þetta hefði verið hennar síðasta keppni.

„Já, þetta er síðasti spretturinn minn," hrópaði Johaug þegar aðstoðarmaður hennar spurði hana strax eftir að hún kom í mark hvort þetta hefði verið hennar síðasta keppni en Johaug var aðeins 4/10 úr sekúndu á undan Kerttu Niskanen frá Finnlandi eftir æsilegan endasprett þeirrra.

Þetta heyrðu fjölmargir fjölmiðlamenn og fregnin barst um allt að hinn sigursæla 33 ára gamla norska kona, sem missti af síðustu Ólympíuleikjum vegna lyfjabanns, væri hætt. Síðan var upplýst að um grín hefði verið að ræða á milli hennar og aðstoðarmannsins.

„Ég er hérna á Ólympíuleikunum og á eftir að keppa oftar hérna. Ég hef ekki keppt í síðasta sinn en ég var ótrúlega taugaóstyrk eftir gönguna áðan," sagði Johaug við VG en hún hefur nú hreppt tvenn gullverðlaun á leikunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert