Þótt Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir sé með sjötta besta árangur íslenskrar konu í sætum talið í svigi á Vetrarólympíuleikum, eins og fjallað var um í blaðinu í gær, horfir málið öðruvísi við þegar skoðað er hversu langt hún var á eftir sigurvegaranum í greininni.
Hólmfríður Dóra var aðeins 8,89 sekúndum samanlagt í tveimur umferðum á eftir ólympíumeistaranum Petru Vlhová frá Slóvakíu þótt hún hafi endað í 38. sæti í sviginu.
Hún er þar með önnur íslenska konan sem er innan við tíu sekúndum á eftir sigurvegara í svigi á Ólympíuleikum. Föðursystir hennar, Ásta Halldórsdóttir, á metið en hún var 5,54 sekúndum á eftir sigurvegaranum, Vreni Schneider frá Sviss, þegar hún hafnaði í 20. sæti í greininni á leikunum í Lillehammer árið 1994.
Steinunn Sæmundsdóttir hefur hinsvegar náð lengst hvað sæti varðar en hún varð í 16. sæti í Innsbruck árið 1976, þá aðeins fimmtán ára gömul. Nafn hennar misritaðist í umfjöllun um svigið í blaðinu í gær.
Tveir íslenskir karlar hafa verið innan við tíu sekúndum á eftir sigurvegara í svigkeppni Ólympíuleikanna. Björgvin Björgvinsson var 8,09 sekúndum á eftir sigurvegaranum Benjamin Raich frá Austurríki þegar hann hafnaði í 22. sæti á leikunum í Tórinó árið 2006 og Kristinn Björnsson var 8,75 sekúndum á eftir Jean-Pierre Vidal frá Frakklandi þegar hann hafnaði í 21. sæti á leikunum í Salt Lake City árið 2002.