Tvö stórmót eru á dagskrá í frjálsum íþróttum næsta sumar. Íslandsmethafinn í kringlukasti, Guðni Valur Guðnason, segir árið 2022 vera mjög spennandi fyrir vikið.
„Maður vill fara inn á stóru mótin. HM verður í júlí og EM í ágúst. Þetta er því ógeðslega spennandi ár,“ sagði Guðni Valur þegar Morgunblaðið spurði hann út í fyrirsjáanlega hápunkta á árinu 2022.
Guðni segir að HM verði mjög áhugavert því það verður haldið í Eugene í Oregon. Þar er mikil hefð fyrir frjálsum enda hefur lokamót NCAA oft verið haldið þar.
„Þar verður svakaleg stemning og verður örugglega uppselt,“ sagði Guðni og hann er bjartsýnn á góðan árangur. „Ég er mjög spenntur fyrir tímabilinu. Tæknilega er ég mjög góður í kringlunni eins og er. Ég er búinn að laga nokkur atriði sem voru aðeins að þvælast fyrir mér í fyrra. Þetta lítur vel út og nú er bara að byggja upp hraðann og negla almennilega á þetta.“
Guðni Valur kastaði yfir 65 metra í fyrra en gerði hins vegar ógilt í öllum þremur tilraunum á stóra sviðinu á Ólympíuleikunum. Var hann þá að vinna í breytingum í tækninni?
„Neinei, en tæknin var að stríða mér. Í staðinn fyrir að ná átaki á kringluna þá gerðist eiginlega ekki neitt og hún fór stutt. Það munar svo litlu varðandi tæknina að kasta 55 eða 65 metra. Getur verið spurning um að öxlin sé þrjá sentimetra aftur eða fram. Það gekk ekki þarna og var auðvitað hundleiðinlegt.“
Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag