Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir lauk keppni á Vetrarólympíuleikunum í Kína í nótt með því að hafna í 32. sæti í risasvigi.
Þetta var þriðja og síðasta grein Hólmfríðar sem varð í 38. sæti í svigi en lauk ekki keppni í stórsvigi.
Keppendur í greininni voru 44 og 42 þeirra luku keppni en í risasviginu er aðeins ein ferð. Hólmfríður fór brautina á 1:17,41 mínútu.
Lara Gut-Behrami frá Sviss, heimsmeistarinn í greininni á síðasta ári, varð Ólympíumeistari á 1:13,51 mínútu. Mirjam Puchner fékk silfrið á 1:13,73 mínútu og bronsið hlaut Michelle Gisin frá Sviss á 1:13,81 mínútu.
Mikaela Shiffrin frá Bandaríkjunum náði að ljúka sinni fyrstu grein á leikunum eftir að hafa fallið í fyrri ferð í bæði svigi og stórsvigi. Hún hafnaði í níunda sæti á 1:14,30 mínútu.