NFL reynir að auka vinsældirnar í Evrópu

Allianz Arena leikvangurinn glæsilegi í München.
Allianz Arena leikvangurinn glæsilegi í München. AFP

Augljóst er að NFL-deildin vill dreifa frekar úr sér og ná til fleiri en hún nær nú þegar. 

Ameríski fótboltinn nýtur geysilega mikilla vinsælda í Bandaríkjunum en víða annars staðar liggja sóknarfæri. Til dæmis í Evrópu. 

Ekki er einfalt að benda á hvað veldur. Ef til vill samkeppnin við Rugby í einhverjum tilfellum og tímamismunurinn. Úrslitaleikurinn, Super Bowl, er til að mynda eftir miðnætti aðfaranótt mánudags í Evrópu. 

Á skrifstofunni hjá NFL reyna menn hvað þeir geta til að breiða út boðskapinn og nú hefur verið tilkynnt um að leikir í deildinni verði á þýskri grundu næstu árin. 

Borgirnar München og Frankfurt munu fá til sín NFL leiki til ársins 2025. Einn leikur verður í Þýskalandi á ári. Í haust verður leikur á Allianz Arena í München þar sem Bayern München leikur heimaleiki sína. Á næsta ári verður leikur á Deutche Bank Park í Frankfurt. Annar leikur verður í München 2024 og annar í Frankfurt árið 2025. 

Úrslitaleikurinn fer fram aðfaranótt mánudags í Kaliforníu.
Úrslitaleikurinn fer fram aðfaranótt mánudags í Kaliforníu. AFP

 Undanfarin fimmtán ár hafa leikir í NFL farið fram í Bretlandi ef undan er skilið árið 2020 þegar það datt upp fyrir vegna heimsfaraldursins. 

NFL er ekki að draga úr í London því einn leikur verður á Wembley á þessu ári og tveir á hinum nýja leikvangi Tottenham Hotspur. Sá leikvangur er raunar hannaður með það í huga að geta tekið á móti NFL. Þar eru til að mynda sér búningsherbergi sem uppfylla skilyrði NFL-liða en þar eru leikmannahóparnir miklu fjölmennari en í knattspyrnunni. 

Formlega hefur nú verið sótt um að Super Bowl fari fram á Tottenham Hotspur stadium í London árið 2026. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka