Snorri Einarsson hafnaði í 36. sæti af 99 keppendum í 15 kílómetra skíðagöngu á Vetrarólympíuleikunum í Peking í morgun. Finninn Iivo Niskanen varð Ólympíumeistari í greininni með nokkrum yfirburðum.
Finninn kom í mark á 37:54,8 mínútum og var 23,2 sekúndum á undan helsta keppinautnum, Alexander Bolshunov frá Rússlandi.
Bronsið fékk síðan Norðmaðurinn Johannes Klæbo á 38:32,3 mínútum.
Snorri var ellefti í rásröðinni og kom því snemma í mark í göngunni, þannig að biðin eftir endanlegu sæti var löng. Hann gekk vegalengdina á 41:17,6 mínútum og var 3:22,8 mínútum á eftir meistaranum Niskanen.
Snorri hefur því bætt sig verulega frá síðustu Ólympíuleikum í Pyeongchang fyrir fjórum árum en þá hafnaði hann í 53. sæti í sömu grein.