Hin fimmtán ára gamla Kamila Valieva frá Rússlandi verður væntanlega send heim frá Vetrarólympíuleikunum í Peking þar sem staðfest hefur verið að hún hafi fallið á lyfjaprófi.
Á mánudaginn vann hún til gullverðlauna með liði Rússlands í liðakeppninni í listhlaupi á skautum.
Valieva var í lykilhlutverki í liði Rússa og þótti sigurstrangleg í einstaklingskeppninni sem hefst á þriðjudaginn. Hún er enn í Ólympíuþorpinu í Peking og æfði í morgun eins og ekkert hefði í skorist.
Málið hefur reynst flókið því samkvæmt reglum WADA, Alþjóðlegu lyfjanefndarinnar, njóta ungmenni yngri en sextán ára sérstakrar verndar þegar kemur að lyfjamálum og almennt er nafnleyndar gætt.
ITA, sem sér um lyfjaprófin, kvaðst hinsvegar hafa neyðst til að skýra málin gagnvart Valievu þar sem fjölmiðlar hefðu ekki farið eftir reglum um nafnleynd, en miklar vangaveltur fóru af stað um málið strax eftir að ljóst varð að verðlaunaafhendingu fyrir liðakeppnina yrði slegið á frest.
ITA staðfesti að Valieva hefði greinst með hjartalyfið trimetazidine í blóðinu á rússneska meistaramótinu í desember, en lyfið eykur blóðflæði til hjartans og er á bannlista WADA.
Rússneska skautasambandið sendi frá sér tilkynningu þar sem niðurstaðan er staðfest en tekið fram að Valieva hefði greinst neikvæð í fjölmörgum lyfjaprófum á svipuðum tíma. Hún hefði hvað eftir annað farið í lyfjapróf fyrir og eftir umrætt mót, sem fór fram 25. desember, og hefði í öll skiptin reynst neikvæð.