Sú norska náði í þriðju verðlaunin

Marte Olsbu Röiseland nálgast markið á sprettinum í dag.
Marte Olsbu Röiseland nálgast markið á sprettinum í dag. AFP

Marte Olsbu Röiseland hefur komist þrisvar á verðlaunapallinn á Vetrarólympíuleikunum í Peking eftir að hún hreppti gullið á sannfærandi hátt í 7,5 kílómetra skíðaskotfimi í dag.

Röiseland, sem er 31 árs gömul, hafði áður fengið gull með blandaðri sveit Noregs í 4x6 km skíðaskotfimi og brons í 15 km skíðaskotfimi kvenna. 

Hittnin var óaðfinnanleg hjá henni í dag og sigurtíminn var 20:44,3 mínútur, rúmum 30 sekúndum betri en hjá Elviru Öberg frá Svíþjóð sem varð önnur. Bronsið fékk Dorothea Wierer frá Ítalíu. Allar þrjár voru með hreint borð í skotfiminni og þurftu því ekki að taka aukahringi.

Röiseland fékk silfur í þessari sömu grein í Pyeongchang árið 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka