Svíinn sló heimsmetið í Peking

Nils van der Poel fagnar sigrinum í dag.
Nils van der Poel fagnar sigrinum í dag. AFP

Svíinn Nils van der Poel sló eigið heimsmet í dag þegar hann varð Ólympíumeistari í 10.000 metra skautahlaupi á Vetrarólympíuleikunum í Peking.

Þetta er annað gullið sem van der Poel hreppir á þessum leikum en hann vann 5.000 metra skautahlaupið á nýju ólympíumeti um síðustu helgi.

Van der Poel brunaði tíu kílómetrana á 12 mínútum, 30,74 sekúndum, og sló ársgamalt heimsmet sitt. Patrick Roest frá Hollandi varð annar á 12:32,95 mínútum og Davide Ghiotto frá Ítalíu þriðji á 12:45,98 mínútum.

Þessi gullverðlaun hans eru þau fyrstu sem Svíar vinna í skautahlaupi á vetrarólympíuleikum í 34 ár, eða síðan Tomas Gustafson vann bæði 5.000 og 10.000 metrana í Calgary í Kanada árið 1988.

Van der Poel er 25 ára gamall og er frá Trollhättan, skammt norður af Gautaborg. Hann varð heimsmeistari í báðum greinunum á síðasta ári en það voru hans fyrstu stóru titlar í fullorðinsflokki á ferlinum, og jafnframt fyrstu heimsmeistaratitlar Svía í 48 ár. Áður varð hann heimsmeistari unglinga árið 2014.

Nils van der Poel skautar til sigurs í Peking.
Nils van der Poel skautar til sigurs í Peking. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka