Japaninn Hirano Ayumu krækti í langþráð gullverðlaun í morgun þegar hann sigraði í hálfpípukeppni karla á snjóbrettum á Vetrarólympíuleikunum í Peking.
Ayumo var búinn að fá silfurverðlaunin á tvennum leikum í röð, í Sotsjí 2014 og aftur í Pyeongchang 2018. Hann náði fágætri stigatölu, 96,00, og var langt á undan keppinautunum. Scotty James frá Ástralíu varð annar með 92,50 stig og Jan Scherrer frá Sviss fékk bronsið með 87,25 stig.
Shaun White, sem keppti á sínum fimmtu og síðustu leikum, 35 ára gamall, missti naumlega af verðlaunum og hafnaði í fjórða sæti.