Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins og birta á mbl.is á laugardögum.
Bolvíkingurinn Ásta Sigríður Halldórsdóttir er í hópi þeirra íslensku kvenna sem náð hafa bestum árangri á Vetrarólympíuleikum. Ásta var á meðal keppenda í alpagreinum á leikunum í Albertville í Frakklandi árið 1992 og í Lillehammer í Noregi árið 1994.
Ásta hafnaði í 30. sæti í stórsvigi og 27. sæti í svigi í Albertville en gerði enn betur í Lillehammer og hafnaði þá í 23. sæti í stórsvigi og 20. sæti í svigi. Þá var hún 24 ára gömul en keppti ekki oftar á Vetrarólympíuleikum. Morgunblaðið greindi frá því að Ásta væri hætt keppni í október 1995 en hún var þá í háskólanámi í Svíþjóð.
Ásta á besta árangur íslenskrar konu í stórsvigi á vetrarólympíuleikum til þessa en besta árangrinum í alpagreinum náði Steinunn Sæmundsdóttir í Innsbruck árið 1976 þegar hún hafnaði í 16. sæti í svigi.
Meðfylgjandi mynd af Ástu er þrjátíu ára gömul og var tekin af Reuters fréttaveitunni fyrir Morgunblaðið þegar Ásta keppti í stórsvigi á leikunum í Albertville árið 1992. Nú þrjátíu árum síðar keppir bróðurdóttir hennar, Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir, í alpagreinum á Vetrarólympíuleikunum í Peking sem nú standa yfir.
Ásta Halldórsdóttir varð tuttugu sinnum Íslandsmeistari í fullorðinsflokki í alpagreinum á skíðum fyrir Skíðafélag Ísafjarðar og náði því á átta ára tímabili. Þegar hún hætti var hún í 70. sæti á heimslistanum en þar voru þá 5.000 skíðakonur skráðar. Ásta varð einnig Íslandsmeistari í sundi í yngri aldursflokkum með UMFB.