Snorri Einarsson er langbestur þeirra íslensku karla sem keppt hafa í 15 km skíðagöngu á Vetrarólympíuleikum og Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir hefur náð næstlengst þeirra íslensku kvenna sem hafa keppt í risasvigi á leikunum.
Þau kepptu bæði í Peking í gærmorgun. Snorri hafnaði í 36. sæti af 99 keppendum í 15 km skíðagöngu og Hólmfríður Dóra hafnaði í 32. sæti af 44 keppendum í risasvigi. Snorri á enn eftir að keppa í tveimur greinum, liðakeppni í sprettgöngu og í 50 km göngu, en þetta var þriðja og síðasta grein Hólmfríðar.
Snorri keppti í 15 km göngunni í annað sinn en hann varð í 53. sæti í Pyeongchang árið 2018. Hann hækkaði sig því um sautján sæti, færði sig enn nær þeim bestu, en er samt nánast jafnlangt á eftir sigurvegaranum og fyrir fjórum árum. Þá var hann um 3,22 mínútum á eftir Dario Cologna frá Sviss og í gær var hann um 3,22 mínútum á eftir hinum magnaða Iivo Niskanen frá Finnlandi sem vann gönguna með nokkrum yfirburðum.
Alls hafa sextán Íslendingar keppt í 15 km skíðagöngu karla á Ólympíuleikum frá árinu 1956 en aðeins tveir á þessari öld; Snorri og Sævar Birgisson sem var með í Sotsjí árið 2014.
Greinin í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag