Laugaði sig í vinsældum

Eddie Edwards á leikunum 1988.
Eddie Edwards á leikunum 1988. AFP

Fáir íþróttamenn slógu jafnrækilega í gegn á vetrarólympíuleikunum í Calgary 1988 og breski skíðastökkvarinn Eddie „The Eagle“ Edwards.

Ekki voru það þó hæfileikar breska Arnarins sem heimsbyggðin stóð á öndinni yfir, eins og gjarnan á ólympíuleikum, heldur þvert á móti skortur á þeim. Óhætt er að fullyrða að Örninn sé lélegasti skíðastökkvari sem sögur fara af – alltént í alþjóðlegri keppni. Hann varð langsíðastur bæði í keppni á 70 og 90 metra palli en vann eigi að síður hug og hjörtu áhorfenda. Réð þar mestu óborganlegur stökkstíll og alþýðlegt viðmót kappans sem stökk jafnan með hnausþykk gleraugu vegna sjóndepurðar.

Örninn gerði sér líka lítið fyrir og setti Bretlandsmet, 73,5 metra. Gullverðlaunahafinn, Matti Nykänen frá Finnlandi, stökk lengst 120,5 metra.

Lét drauminn rætast

Michael Edwards fæddist í Cheltenham á Englandi árið 1963 og kom fyrst fram á sjónarsviðið sem skíðamaður í alpagreinum – prýðilega frambærilegur í þokkabót. Herslumuninn vantaði þó hjá honum til að komast í breska landsliðið fyrir ólympíuleikana í Sarajevo 1984. Sama var upp á teningnum fjórum árum síðar enda þótt Örninn hefði á þeim tíma flutt búferlum til Lake Placid í Bandaríkjunum til að freista þess að styrkja stöðu sína. Til að láta draum sinn um að keppa á ólympíuleikum rætast skipti Örninn því um grein, sneri sér að skíðastökki. Ástæðan var tvíþætt: Annars vegar var samkeppnin um að komast í breska landsliðið engin og hins vegar var ólympíulágmarkið mun lægra en í alpagreinunum. Örninn Eddie flaug fyrir vikið inn á leikana. Ævintýrið borgaði kappinn úr eigin vasa.

Enda þótt áhorfendur væru allir með tölu með hjartað í brókinni þegar Örninn lét sig „svífa“ fram af pallinum í Calgary lenti hann iðulega heilu og höldnu. Svo skrýtinn var stíllinn að sú saga breiddist fljótt út að Örninn væri logandi lofthræddur. Þann misskilning leiðrétti hann löngu síðar í viðtali við breska blaðið The Guardian . „Þegar mest var stökk ég sextíu sinnum á dag. Það myndi ekki nokkur lofthræddur maður gera.“

En var hann hræddur við stökkið sjálft?

„Logandi hræddur. Hvert stökk hefði getað orðið mitt síðasta.“

Rataði á hvíta tjaldið

Örninn laugaði sig í vinsældum í kjölfar leikanna og mætti í spjallþætti í sjónvarpi vítt og breitt um heiminn, meðal annars í The Tonight Show í Bandaríkjunum. Féll þessi frami skíðastökkshreyfingunni illa í geð enda menn sannfærðir um að Örninn væri að gera gys að greininni. Í kjölfarið voru inntökuskilyrði á mót snarhert og ólympíulágmarkið hækkað verulega. Sú ráðstöfun gerði það að verkum að Örninn komst hvorki á ólympíuleikana í Albertville 1992, Lillehammer 1994 né Nagano 1998, þrátt fyrir einlæga viðleitni í þá veru.

Örninn á flugi.
Örninn á flugi. AFP

Hin seinni ár hefur Örninn Eddie komið víða við, meðal annars gefið út tvö lög í Finnlandi, sungin á finnsku enda þótt hann tali ekki stakt orð í tungumálinu. Slógu þau bæði í gegn.

Þá hefur kappinn sent frá sér bók um skíðastökksferil sinn og notið vinsælda sem þáttastjórnandi og hjá auglýsendum í sjónvarpi. Árið 1992 varð Örninn gjaldþrota og hóf í kjölfarið laganám sem hann lauk frá háskóla í Leicester.

Kvikmynd um kappann er nú í burðarliðnum, þar sem Rupert Grint, sem kunnur er fyrir leik sinn í Harry Potter-myndunum, mun fara með hlutverk Arnarins. Spurður um það val kvaðst Örninn sáttur, betra hefði þó verið að fá Tom Cruise eða Brad Pitt í verkið!*

Greinin birtist fyrst í SunnudagsMogganum hinn 4. mars 2012. 

*Kvikmyndin um Eddie the Eagle kom út árið 2016 og var kappinn leikinn af Taron Egerton. 

Taron Egerton og Hugh Jackman í hlutverkum sínum í kvikmyndinni …
Taron Egerton og Hugh Jackman í hlutverkum sínum í kvikmyndinni Eddie the Eagle. Skjáskot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka