Kamila Valieva fær að keppa í einstaklingskeppni í listdansi á skautum á Vetrarólympíuleikunum í Peking í Kína þrátt fyrir að hafa fallið á lyfjaprófi á dögunum.
Það er BBC sem greinir frá þessu. Hin rússneska Valieva er einungis 15 ára gömul en hjartalyfið trimetazidine fannst í blóði hennar á rússneska meistaramótinu í desember á síðasta ári. Lyfið eykur blóðflæði til hjartans og er á bannlista Alþjóðalyfjanefndarinnar, WADA.
Samkvæmt reglum WADA njóta ungmenni yngri en sextán ára sérstakrar verndar þegar kemur að lyfjamálum og er nafnleyndar almennt gætt í þeirra tilfellum.
Alþjóðaíþróttadómstóllinn, CAS, tók mál Valievu fyrir og ákvað að endingu hún yrði ekki send heim af leikunum.
„Íþróttamaðurinn er ekki orðinn sextán ára og hún á því að njóta þeirra reglugerðar þegar horft er til þeirra stórfurðulega aðstæðna sem hún er nú í,“ segir meðal annars í úrskurði CAS.
„Hún fékk niðurstöður úr prófinu sex vikum eftir að hún fór í það sem er engan veginn ásættanlegt. Það er ekki henni að kenna að niðurstöðurnar hafi komið svona seint og að það hafi gerst á sjálfum Vetrarólympíuleikunum er ómannúðlegt,“ segir enn fremur í úrskurðinum.