Fyrst kvenna á Ólympíuleikum

Kaillie Humphries fagnar sögulegum sigri í nótt.
Kaillie Humphries fagnar sögulegum sigri í nótt. AFP

Hin bandaríska Kaillie Humphries skrifaði sig í sögubækurnar í morgun þegar hún fagnaði sigri í bobbsleðakeppni kvenna á Vetrarólympíuleikunum í Peking í Kína.

Humphries, sem er 36 ára, er fyrsta konan til þess að vinna til gullverðlauna fyrir tvö lönd á Ólympíuleikunum en hún keppti fyrir Kanada, þar sem hún er fædd og uppalin, til ársins 2018.

Hún vann til tvennra gullverðlauna á Ólympíuleikum fyrir Kanada, í Vancouver 2010 og Sochi í Rússlandi 2014 og þá fékk hún brons í PyeongChang árið 2018 en öll verðlaunin fékk hún í tveggja manna sleðakeppni.

Humphries kom í mark á tímanum 4:19,27 mínútum en Elena Meyers frá Bandaríkjunum varð önnur á tímanum 4:20,81 mínúta. Christine de Bruin frá Kanada varð svo þriðja á 4:21,03 mínútum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert