Hætti keppni í Peking af heilsufarsástæðum

Ingrid Landmark Tandrevold hefur ekki náð sér á strik í …
Ingrid Landmark Tandrevold hefur ekki náð sér á strik í Peking og þurftu liðsfélagar hennar að bera hana af velli eftir að hún kom í mark í eltigöngunni. AFP

Norska skíðaskotfimikonan Ingrid Landmark Tandrevold er hætt keppni á Vetrarólympíuleikunum í Peking af heilsufarsástæðum. Þetta tilkynnti hún á blaðamannafundi í dag.

Trandevold hefur átt erfitt uppdráttar á leikunum til þessa en hún hneig niður þegar hún kom í marki í bæði sprettgöngu og eltigöngu.

Hún var lengi vel í 3. sæti í keppni í sprettgöngu og virtist fátt geta komið í veg fyrir það að hún myndi enda á verðlaunapalli en hún gaf mikið eftir á lokasprettinum og hafnaði að endingu í 14. sæti í greininni.

„Ég mun ekki taka þátt í fleiri greinum á Vetrarólympíuleikunum í ár,“ sagði Tandrevold á tilfinningaþrungnum blaðamannafundi í dag.

„Ég hef ákveðið að hætta keppni af heilsufarsástæðum en ákvörðunin var ekki mín,“ bætti Tandrevold við en það var læknisteymi norska liðsins sem tók þá ákvörðun að hún skildi hætta keppni.

Skíðagöngukonan hefur glímt við óreglulegan hjartslátt frá árinu 2017 og virðist andrúmsloftið í Peking hafa farið illa í hana. Læknateymi Noregs vildi því ekki taka neina áhættu og mun hún gangast undir frekari rannsóknir á næstu dögum.

Trandebold átti að keppa í blandraðri liðakeppni í eltigöngu á miðvikudaginn en Karoline Knotten kemur inn í hennar stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert