Los Angeles Rams vann Cincinnati Bengals í Ofurskálarleik NFL-deildarinnar 23:20 í spennandi leik hér á SoFi leikvanginum í nótt, á sunnudagskvöldi að staðartíma.
Þetta var leikur þar sem Rams – á sínum eigin heimavelli – var talið mun sigurstranglegra og flestir sérfræðingar gáfu Bengals lítið tækifæri á að hremma sinn fyrsta titil í þessum leik.
Rams byrjaði leikinn vel, rétt eins og liðið hefur gert í síðustu sex leikjum og komst í 13:3 forystu í fyrsta leikhlutanum, en Cincinnati klóraði í bakkann fyrir hálfleikinn með snertimarki og staðan var 13:10 fyrir Rams í hálfleik.
Strax í fyrstu tilraun Bengals í seinni hálfleiknum sendi Joe Burrows 75 jarda sendingu á Tee Higgins og liðið bætti síðan við vallarmarki til að ná 20:13 forystu í þriðja leik hlutanum áður en nokkur áttaði sig á. Það var því nú að duga eða drepast fyrir stjörnulið Rams og eftir vallarmark sem minnkaði muninn í 20:16 virtist augljóst að þessi leikur stefndi í spennu í lokaleikhlutanum.
Það var þá sem að varnir beggja liða tóku yfir leikinn og í næstu sjö skipti sem sóknarliðin fengu boltann urðu þau að sparka honum í burtu til andstæðingsins. Cincinnati síðast þegar um sex mínútur voru eftir.
Sóknarlið Rams fór þá loks í gang og leikstjórnandinn Matthew Stafford sýndi af hverju Rams liðið fórnaði miklu til að fá hann til liðsins síðasta sumar. Hann lék af mikilli yfirvegun. Hægt og sígandi stýrði hann liðinu upp völlinn í sextán sóknartilraunum á fimm mínútum, sem endaði með sendingu á Cooper Kupp í endamarkinu þegar rúm ein mínúta var eftir og Rams því með forystuna, 23:20.
Sterkt varnarlið Rams lokaði svo á sókn Bengals á síðustu mínútunni og innbyrti erfiðan sigur.
Kupp var í leikslok útnefndur maður leiksins en hann var fyrr í vikunni kjörinn besti sóknarmaður deildarinnar.
Þetta er annar sigurinn í sögu Rams en liðið vann titilinn áður árið 1999 þegar það átti heimavöll í St. Louis. Bengals tapaði sínum þriðja úrslitaleik en 33 ár eru síðan liðið komst síðast í úrslitin.