Corrine Suter frá Sviss er bæði heims- og ólympíumeistari í bruni eftir sigur í bruni kvenna í Peking í nótt, einni vinsælustu grein Vetrarólympíuleikanna.
Suter sigraði í bruninu á HM í fyrra og er nú komin í hóp þeirra sem tekist hefur að vinna sömu greinina á HM og ÓL. Suter sagði erfitt að koma tilfinningum sínum í orð þegar niðurstaðan lá fyrir en sagði að með sigri á Vetrarólympíuleikunum hefði sinn stærsti draumur í lífinu ræst.
Vindur gerði keppnina krefjandi en þegar uppi var staðið voru sterkustu brunkonurnar í vetur í tveimur efstu sætunum. Suter er önnur á stigalistanum í bruni í vetur en sú efsta, Sofia Goggia frá Ítalíu, hafnaði í 2. sæti í nótt.
Árangur Goggia kom á óvart því hún meiddist á hné í keppni í heimsbikarnum fyrir aðeins þremur vikum síðan. Hún sagði ótrúlegt að hafa nælt í verðlaun í nótt ef mið sé tekið af því í hvernig ástandi hún var fyrir tuttugu dögum síðan.
Suter kom í mark á 1:31,87 mínútum og var 0,16 sekúndum á undan Goggia.
Mikaela Shiffrin frá Bandaríkjunum hafnaði í 18. sæti í keppninni og var ánægð í viðtölum eftir keppnina.