Austurríkisbúinn Anna Gasser bar sigur úr býtum í risastökki kvenna á snjóbretti eftir hörkukeppni við hina nýsjálensku Zoi Sadowski-Synnott á Vetrarólympíuleikunum í Peking í nótt.
Sadowski-Synnott var með forystuna að loknum tveimur fyrstu stökkunum en Gasser fékk flest stig allra í þriðja og síðasta stökki sínu og skaut Nýsjálendingnum þar með ref fyrir rass.
Samtals fékk Gasser 185,5 stig og krækti í ólympíugull í greininni aðra leikana í röð eftir að hafa sömuleiðis gert það í Pyeongchang í Suður-Kóreu árið 2018.
Sadowski-Synnott, sem hafði áður unnið til gullverðlauna í brekkufimi kvenna á leikunum í Peking, gerði sér silfrið að góðu í risastökkinu með 177 stig.
Í þriðja sæti hafnaði Kokomo Murase með 171,5 stig og vann sér þannig inn bronsverðlaun.