Sturla Snær Snorrason féll úr keppni í svigi karla á Vetrarólympíuleikunum í Peking í Kína í nótt.
Hann var með rásnúmer 47 í greininni en hann missti af beygju ofarlega í brautinni með þeim afleiðingum að hann keyrði út úr henni í fyrri ferð sinni.
Efri hluti brautarinnar reyndist mörgum keppendum erfið og voru margir keppendur sem féllu úr leik eftir að hafa skíðað út úr braut.
Sturla Snær, sem er 27 ára gamall, hefur því lokið keppni á leikunum í ár en hann greindist með kórónuveiruna laugardaginn 5. febrúar og losnaði úr einangrun á síðasta föstudag. Hann ákvað af þeim sökum að hætta við keppni í stórsvigi.
Óhætt er að segja að veiran hafi sett stórt strik í gengi hans á leikunum en hann var með háleit markmið fyrir leikana í Peking, áður en hann greindist og þurfti að dvelja í vikulangri einangrun.