Skíðagöngumennirnir Isak Stianson Pedersen og Snorri Einarsson höfnuðu í 20. sæti í liðakeppni í sprettgöngu á Vetrarólympíuleikunum í Peking í morgun.
Þeir komu í mark á tímanum 21:05,66 mínútum sem var tuttugasti besti tími undankeppninnar en dugði þeim ekki til þess að komast áfram í úrslitin.
Snorri gekk fyrsta, þriðja og fimmta hlutann á meðan Ísak gekk annan, fjórða og sjötta hlutann.
Noregur Frakkland, Finnland, Kanada Ítalía, Svíþjóð, Sviss og Austurríki keppa til úrslita í greininni en fjögur efstu liðin úr hvorum riðli fóru áfram. Þátttökuþjóðirnar í greininni voru 25 talsins og þeir Snorri og Isak urðu í 10. sæti af 12 í seinni undanriðlinum.
Isak hefur því lokið keppni á leikunum í ár og er Snorri Einarsson eini Íslendingurinn sem hefur ekki lokið keppni en hann keppir í 50 kílómetra göngu á laugardaginn sem er jafnframt hans sterkasta grein.