Ef kórónuveiran bankar ekki upp á verður Montell Douglas fyrsta breska konan til að afreka að keppa bæði á Ólympíuleikum og Vetrarólympíuleikum.
Góðir spretthlauparar hafa af og til í gegnum tíðina verið lokkaðir í bobsleðakeppnir með það að markmiði að keppa á Vetrarólympíuleikunum. Ekki þarf að fræða fólk sérstaklega um þetta sem séð hefur kvikmyndina Cool Runnings um bobsleðalið Jamaíku.
Hvert sekúndubrot skiptir máli og hægt er að koma sér í góða stöðu með góðum spretti í upphafi áður en keppendur henda sér um borð í sleðann.
Montell Douglas mun keppa ásamt Micu McNeill í tveggja manna sleðakeppni fyrir Bretland á Vetrarólympíuleikunum í Peking. Fjórtán ár eru liðin síðan hún keppti fyrir Bretland í 100 metra hlaupi og 4x100 metra metra boðhlaupi á Ólympíuleikunum. Svo furðulega vill til að báðir leikarnir sem um ræðir fara fram í Peking í Kína.
Minningarnar frá 2008 eru ekkert sérstakar fyrir Douglas. Hún rétt missti af því að komast í undanúrslit í 100 metra hlaupinu og í boðhlaupinu urðu Bretunum á mistök.
„Ég er alveg sérlega stolt af því að vera hérna,“ sagði Douglas í samtali við Eurosport en hún er 36 ára gömul.
„Ég nýt þess að vera hérna og drekka þetta allt saman í mig. Maður fær jú ekki að upplifa marga Ólympíuleika. Fáir komast á Ólympíuleika yfirleitt og mjög fáir keppa bæði á sumar- og vetrarleikum,“ sagði Douglas og lét þess getið að hraðinn væri áhugamál hjá henni. Hvort sem það væri á hlaupabrautinni þar sem hún náði að hlaupa 100 metra á 11 sekúndum eða hraðskreiðir bílar eða bobsleðar sem fara vel yfir 100 kílómetra hraða í brautinni.