Finnland fékk í dag bronsverðlaunin í íshokkí kvenna á Vetrarólympíuleikunum í Peking með því að vinna sannfærandi sigur á Svisslendingum.
Lokatölur urðu 4:0 en lengi vel varði Andrea Brändli markvörður Svisslendinga nánast allt sem á markið kom. Viivi Vainikka skoraði þó í fyrsta leikhluta og í þeim þriðja og síðasta bættu Susanna Tapani, Nelli Laitinen og Michelle Karvinen við mörkum.
Þetta er í fjórða sinn sem Finnland hlýtur bronsverðlaunin í íshokkí kvenna á leikunum en það sama gerðist 1998, í fyrsta sinn sem konur kepptu í þessari grein á leikunum, og aftur 2010 og 2018.