„Skíthræddur um að tímabilið sé búið“

Sturla Snær Snorrason í svigbrautinni í nótt.
Sturla Snær Snorrason í svigbrautinni í nótt. AFP

Tímabilið hjá skíðamanninum Sturlu Snæ Snorrasyni er að öllum líkindum búið eftir að hann féll úr leik í keppni í svigi á Vetrarólympíuleikunum í Peking í nótt.

Þetta staðfesti hann í samtali við mbl.is í dag.

Sturlu, sem er 27 ára gamall, tókst ekki að ljúka fyrri ferð sinni í svigkeppninni en hann fann fyrir miklum verkjum strax og hann renndi sér af stað.

Hann var með rásnúmer 47 í svigkeppninni og skíðaði út úr braut ofarlega í brekkunni.

„Líkaminn höndlaði engan vegin öll átökin brekkunni og strax í annarri beygju fann ég fyrir miklum sársauka,“ sagði Sturla í samtali við mbl.is.

„Í fjórðu beygju var bara eins og allt hefði gefið sig. Ég er tognaður á kviði og í nára og ég er með beinmar í mjöðminni líka. 

Það er nokkuð ljóst að vöðvarnir fengu bara sjokk um leið og ég renndi mér af stað enda átökin í svona keppni allt önnur en á venjulegum æfingum.

Ég er skíthræddur um að tímabilið hjá mér sé bara búið en það ætti að skýrast betur í næstu viku,“ bætti Sturla við.

Ítarlegt viðtal við Sturlu birtist á íþróttasíðum Morgunblaðsins á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert