Svíar urðu í dag fjórða og síðasta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum íshokkíkeppni karla á Vetrarólympíuleikunum í Peking þegar þeir lögðu Kanadamenn að velli, 2:0, í síðasta leik átta liða úrslitanna.
Leikurinn var markalaus þar til tíu mínútur voru til leiksloka en þá skoraði Lucas Wallmark fyrir Svía. Þegar tvær mínútur voru eftir mætti Anton Lander við öðru marki og sigurinn var í höfn.
Fyrr í dag vann Slóvakía sigur á Bandaríkjunum, 3:2, Finnland lagði Sviss örugglega, 5:1, og Rússland sigraði Danmörku, 3:1.
Undanúrslitin fara fram á föstudag en þar leikur Finnland við Slóvakíu og Rússland mætir Svíþjóð.
Rússar eiga titil að verja frá árinu 2018 en Þýskaland, Kanada og Tékkland sem þá voru í næstu sætum eru öll fallin úr keppni.