Þrjú mismunandi hjartalyf í sýni undrabarnsins

Kamila Valieva er efst eftir skylduæfingarnar í einstaklingskeppni í listdansi …
Kamila Valieva er efst eftir skylduæfingarnar í einstaklingskeppni í listdansi á skautum. AFP

Þrjú mismunandi hjartalyf fundust í sýni hinnar 15 ára gömlu Kamilu Valievu frá Rússlandi. 

Það er New York Times sem greinir frá þessu. Valieva, sem keppir í listdansi á skautum, féll á lyfjaprófi í desember á síðasta ári en niðurstöður úr prófinu bárust Alþjóða ólympíunefndinni eftir að Vetrarólympíuleikarnir í Peking hófust.

Í vikunni tók Alþjóða íþróttadómstóllinn, CAS, þá ákvörðun að Valieva fengi að halda áfram keppni á leikunum, þrátt fyrir að hafa fallið á lyfjaprófi.

Auk Trimetazidine fundust einnig Hypoxen og L-Carnatine en aðeins Trimetazidine er á bannlista Alþjóða lyfjaeftirlitsins þar sem það er sagt geta aukið úthald þeirra sem neyta þess. 

Valieva greindi frá því í gær að afi hennar þyrfti að taka hjartalyf dagsdaglega og að hún hafi innbyrt efnin óvart eftir að hafa drukkið úr sama glasi og hann.

Valieva var hluti af liði rússnesku ólympíunefndarinnar sem vann til gullverðlauna í listdansi á skautum á leikunum og þá er hún efst eftir skylduæfingarnar í einstaklingskeppninni í sömu grein.

Keppni í frjálsum æfingum fer fram á morgun og getur Valieva þá tryggt sér sigur í greininni en engin verðlaunaafhending mun fara fram í þeim í greinum þar sem Valieva endar í efstu þremur sætunum vegna rannsóknarinnar á lyfjamisferli hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert