Vetrarólympíuleikarnir í Peking hafa reynst skíðamanninum Sturlu Snæ Snorrasyni vægast sagt erfiðir.
Sturla, sem er 27 ára gamall, var með háleit markmið fyrir leikana og ætlaði sér meðal annars að enda í einu af 30 efstu sætunum í svigi karla sem er hans sterkasta grein.
Markmiðin voru hins vegar fljót að breytast eftir að hann greindist með kórónuveiruna laugardaginn 5. febrúar, degi eftir setningarathöfn leikanna þar sem hann var fánaberi Íslands ásamt skíðagöngukonunni Kristrúnu Guðnadóttur.
Sturla eyddi sjö dögum í einangrun á kórónuveirusjúkrahúsi í Peking. Hann dvaldi í átta fermetra sjúkraherbergi þar sem aðbúnaðurinn var ekki upp á marga fiska.
Hann ákvað að hætta við keppni í stórsvigi hinn 13. febrúar, tveimur dögum eftir að hann losnaði úr einangrun, og í fyrrinótt féll hann úr keppni í svigi eftir að hafa meiðst illa á leið sinni niður brekkuna.
„Tilfinningin núna er vægast sagt skrítin,“ sagði Sturla í samtali við Morgunblaðið stuttu eftir að hann féll úr keppni í sviginu.
„Þessir leikar hefðu ekki getað farið verr. Það er bara nákvæmlega þannig og það er í raun erfitt að finna lýsingarorð til að lýsa því hvernig þetta fór. Eftir á að hyggja var ég engan veginn tilbúinn í þetta eftir vikulanga einangrun. Vöðvarnir höfðu rýrnað eftir dvöl mína á sjúkrahúsinu en ég var ekki tilbúinn að horfast í augu við þá staðreynd.
Ég reyndi að einbeita mér að því að vera úthvíldur fyrir svigkeppnina en að ná bara tveimur æfingadögum fyrir svigið, og snjóinn í Peking, var engan veginn nóg. Þetta er erfiður snjór að skíða í og hann hafði sitt að segja eins og sást þar sem margir keppendur skíðuðu út úr brautinni. Ef ég hefði haft viku til þess að undirbúa mig er ég nokkuð viss um að ég mér hefði gengið mun betur, en svona fór því miður,“ sagði Sturla.
Sturla féll ofarlega í brautinni en í fyrstu virtist eins og hann hefði hreinlega skíðað út úr braut líkt og fjöldi keppenda á undan honum.
„Þegar á reyndi þá höndlaði líkaminn illa átökin í brautinni enda miklu meira álag í keppni en á æfingu. Þú gefur þig allan í þetta í keppni á meðan þú getur leyft þér að taka því aðeins rólega á æfingum og byggt þannig upp hraðann hægt og rólega. Ég byrjaði að finna fyrir verkjum strax í annarri beygju og í fjórða beygju er eins og allt gefi sig. Ég tognaði í kviði, í nára og marðist líka á mjaðmabeini við átökin. Það er nokkuð augljóst að vöðvarnir fengu bara algjört sjokk. Ég ætlaði að sýna þjóðinni hvað í mér býr en þegar á reyndi gaf líkaminn sig.“
Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.