Ólympíu-og heimsmeistarinn í kringlukasti, Daniel Ståhl frá Svíþjóð, mun keppa á Íslandi þegar Frjálsíþróttasamband Íslands mun halda upp á 75 ára afmæli sambandsins.
Vésteinn Hafsteinsson segir frá þessu í samtali við RÚV en Vésteinn hefur þjálfað Ståhl um langa hríð. Vésteinn er frá Selfossi og þar verður mótið haldið í maí. Verður Vésteinn með í för en hann segist í samtali við RÚV hafa beðið þá Ståhl og Simon Petterson sem vann til silfurverðlauna í kringlukastinu á ÓL í Japan að gera sér þann greiða að keppa á mótinu. Það hafi verið auðsótt.
Íslandsmethafinn Guðni Valur Guðnason fær því eins góða samkeppni og best verður á kosið í móti hérlendis en Guðni reynir að vinna sig inn á HM og EM sem fram fara í júlí og ágúst.