Norðmaðurinn Jakob Ingebrigtsen setti í kvöld nýtt heimsmet í 1.500 metra hlaupi karla innanhúss á móti í Lievin í Frakklandi.
Ingebrigtsen, sem varð Ólympíumeistari í greininni utanhúss á síðasta ári, hafði betur í baráttu við fráfarandi heimsmethafa, Samuel Tefera frá Eþíópíu, og sigraði á 3:30,60 mínútum en Tefera var rúmum þremur sekúndum á eftir honum í mark.
Ingebrigtsen er aðeins 21 árs gamall og setti þarna sitt fyrsta heimsmet en hann setti Evrópumet í greininni á sama móti fyrir ári síðan og hljóp þá á 3:31,80 mínútum.
Heimsmetið utanhúss hefur hinsvegar staðið síðan í lok síðustu aldar. Það er 3:26,00 mínútur og Hicham El Guerrouj frá Marokkó er handhafi þess frá árinu 1998.