Hin 15 ára gamla Kamila Valieva náði sér ekki á strik í frjálsu æfingunum í listhlaupi kvenna á skautum á Vetrarólympíuleikunum í Peking í dag.
Valieva var efst eftir skylduæfingarnar með 82,16 stig en hún féll tvívegis í frjálsu æfingunum og fékk fyrir það dýr mínusstig.
Hún hafnaði að endingu í fjórða sæti með 224,09 stig en hún brotnaði niður á ísnum eftir æfingar sínar og brast í grát.
Þjálfari hennar reyndi hvað hann gat að hugga hana en hún virtist óhuggandi á meðan hún beið eftir niðurstöðu dómaranna.
Valieva hefur stolið senunni á leikunum í Peking en hún féll á lyfjaprófi í desember á síðasta ári eftir að hjartalyfið Trimetazidine fannst í blóði hennar en Alþjóða íþróttadómstóllinn, CAS, úrskurðaði í vikunni að hún fengi að halda keppni áfram á leikunum, meðal annars vegna þess að hún hefði ekki náð 16 ára aldri.
Ákvörðun Alþjóða íþróttadómstólsins var harðlega gagnrýnd, meðal annars af öðrum keppendum, og var það gefið út fyrir keppni í listhlaupinu að engin verðlaunaafhending myndi fara fram ef Valieva myndi vinan til verðlauna í greininni.
Pressan var því gríðarleg á hinni 15 ára gömlu Valieva sem hafði áður greint frá því að afi hennar þyrfti að taka hjartalyf dagsdaglega og að hún hafi óvart innbyrt lyfið eftir að hafa drukkið úr sama glasi og hann.
Anna Shceherbakova frá rússnesku ólympíunefndinni fagnaði sigri í listhlaupinu með 251,73 stig, landa hennar Alexandra Trusova varð önnur með 251,73 stig og Kaori Sakamoto frá Japan varð þriðja með 233,13 stig.