Með heimsfaraldrinum hafa komið upp nýjar aðstæður á stórmótum í íþróttum. Nú getur komið upp sú staða að fólk fari í einangrun á hótelherbergi og beint út í harða keppni að henni lokinni.
Kórónuveiran hefur auðvitað haft ýmisleg önnur áhrif á íþróttaheiminn, en þetta er ef til vill nýjasta dæmið. Eftir að fjöldi fólks í heiminum fékk bólusetningu, og það oftar en einu sinni, er íþróttafólkið sjaldan mjög veikt þegar það smitast.
Tvívegis hefur það gerst á nýju ári að íslenskir íþróttamenn hafa meiðst við það að fara beint úr einangrun í keppni. Aron Pálmarsson meiddist eftir nokkrar mínútur í leiknum gegn Svartfjallalandi á EM karla í handknattleik og Sturla Snær Snorrasson snemma í sviginu á Vetrarólympíuleikunum í Peking.
Þarna eru komnar mjög sterkar vísbendingar um hversu skrítið það er fyrir mannslíkamann þegar vel þjálfaður íþróttamaður, sem æfir daglega, fer inn á herbergi í marga daga. Fyrir Pétur og Pál myndi það ef til vill ekki skipta miklu máli.
Bakvörðinn má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.