Finnland og Rússland munu takast á í úrslitaleiknum í íshokkí karla á Vetrarólympíuleikunum í Peking.
Í síðari undanúrslitaleiknum tókst Rússum að hafa betur gegn Svíum eftir framlengdan leik og framlengda vítakeppni.
Finnar höfðu áður tryggt sér sæti í úrslitaleiknum og nú er ljóst að stóri nágranninn í austri verður andstæðnigur Finnlands í úrslitunum.
Líklega má kalla íshokkí þjóðaríþrótt Finna og þeir hafa verið mjög sterkir í íþróttinni þótt þar þurfi þeir að keppa við stórveldin Rússland og Bandaríkin og fleiri miklar íshokkíþjóðir eins og Kanada, Svíþjóð eða Tékkland.
Þrátt fyrir hefur finnska karlalandsliðinu þrívegis tekist að verða heimsmeistari: 1995, 2011 og 2019.
Finnum hefur hins vegar ekki tekist að verða ólympíumeistarar karla í íshokkí og eftirvæntingin fyrir úrslitaleiknum er því geysileg í Finnlandi. Tvívegis áður hefur finnska liðið náð í úrslitaleik á Vetrarólympíuleikunum en tapað. Var það 1988 og 2006.
Rússar eiga möguleika á að verða ólympíumeistarar á tveimur leikum í röð. Er það nokkuð merkilegt því gullið hafði gengið þeim úr greipum þar til 2018. En þar er auðvitað átt við Rússland en lið Sovétríkjanna var mjög sigursælt á 20. öldinni. Rússar hafa einu sinni fengið silfur og einu sinni brons á Vetrarólympíuleikum: 2002 og 1998. Þeir hafa náð sér betur á strik á HM og eru fimmfaldir heimsmeistarar.