Mikil valdabarátta í búningsklefa United

Cristiano Ronaldo kemur af velli fyrir fyrirliðann Harry Maguire.
Cristiano Ronaldo kemur af velli fyrir fyrirliðann Harry Maguire. AFP

Mikil valdabarátta á sér nú stað í búningsklefa enska knattspyrnufélagsins Manchester United. Það er Mirror sem greinir frá þessu.

Ralf Rangnick, stjóri United, er sagður íhuga það alvarlega að gera Cristiano Ronaldo að fyrirliða liðsins en það hefur ekki farið vel í Harry Maguire sem hefur verið fyrirliði liðsins frá ársbyrjun 2020.

Maguire hefur átt erfitt uppdráttar á tímabilinu og gæti það verið honum fyrir besta að gefa frá sér fyrirliðabandið að mati Rangnicks.

Enski varnarmaðurinn hefur hins vegar lítinn áhuga á því að sleppa fyrirliðabandinu og hvað þá til Ronaldo sem hefur verið sakaður um klíkuskap í klefanum hjá enska félaginu. 

Þá hefur Ronaldo fengið það hlutverk hjá félaginu að leiðbeina ungum leikmönnum liðsins, eitthvað sem hefur ekki fallið vel í kramið hjá Maguire.

Vandamálin herja á Manchester United og Ralf Rangnick þessa dagana en Gary Neville, fyrrverandi fyrirliði liðsins, greindi frá því á dögunum að leikmenn liðsins væri að leka ýmsum upplýsingum um stemninguna í búningsklefa liðsins til fjölmiðla til þess að grafa undir þjálfarateyminu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert