Nico Porteous frá Nýja-Sjálandi er ólympíumeistari í hálfpípu í skíðafimi karla eftir að hafa skákað Bandaríkjamanninum David Wise, ríkjandi meistara í greininni, á Vetrarólympíuleikunum í Peking í nótt.
Wise er raunar tvöfaldur meistari, vann til ólympíugulls í Sochi árið 2014 og Pyeongchang árið 2018 í greininni.
Porteous fékk 93 stig í sínu fyrsta stökki og dugði það honum til sigurs þar sem Wise átti í nokkrum erfiðleikum með vindasamar aðstæðurnar og fékk mest 90,75 stig, einnig í sínu fyrsta stökki.
Nægði það til silfurverðlauna og fór bronsið einnig til Bandaríkjanna þar sem Alex Ferreira fékk 86,75 stig í þriðja sætinu.
Porteous, sem er aðeins tvítugur, tryggði þar með Nýja-Sjálandi sín önnur gullverðlaun á leikunum í Peking.