Skaut tvöfalda meistaranum ref fyrir rass

Nico Porteous kátur eftir að hafa unnið sér inn ólympíugull.
Nico Porteous kátur eftir að hafa unnið sér inn ólympíugull. AFP

Nico Porteous frá Nýja-Sjálandi er ólympíumeistari í hálfpípu í skíðafimi karla eftir að hafa skákað Bandaríkjamanninum David Wise, ríkjandi meistara í greininni, á Vetrarólympíuleikunum í Peking í nótt.

Wise er raunar tvöfaldur meistari, vann til ólympíugulls í Sochi árið 2014 og Pyeongchang árið 2018 í greininni.

Porteous fékk 93 stig í sínu fyrsta stökki og dugði það honum til sigurs þar sem Wise átti í nokkrum erfiðleikum með vindasamar aðstæðurnar og fékk mest 90,75 stig, einnig í sínu fyrsta stökki.

Nægði það til silfurverðlauna og fór bronsið einnig til Bandaríkjanna þar sem Alex Ferreira fékk 86,75 stig í þriðja sætinu.

Porteous, sem er aðeins tvítugur, tryggði þar með Nýja-Sjálandi sín önnur gullverðlaun á leikunum í Peking.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert