Snorri Einarsson náði í morgun besta árangri Íslendings í skíðagöngu á Vetrarólympíuleikum þegar hann hafnaði í 23. sæti í 50 kílómetra göngunni á leikunum í Peking.
Keppendur voru 61 talsins en vegna erfiðra skilyrða og mikils kulda var gangan stytt niður í 30 kílómetra. Snorri var mjög framarlega allan tímann og kom í mark á einni klukkustund, 14:51,6 mínútum.
Hann var 3,18 mínútum á eftir sigurvegaranum en Alexander Bolshunov frá Rússlandi varð Ólympíumeistari á einni klukkustund, 11:32,7 mínútum. Hann varð 5,5 sekúndum á undan landa sínum Ivan Jakimushkin sem fékk silfrið. Simen Hegstad Krueger frá Noregi fékk bronsið, hálfri annarri sekúndu á eftir Jakimushkin.
Þar með hafa allir Íslendingarnir lokið keppni á leikunum en þetta var fjórða grein Snorra.