Finnland vann sitt fyrsta ólympíugull

Finnar fagna glæsilegum sigri sínum í morgun.
Finnar fagna glæsilegum sigri sínum í morgun. AFP

Finnland bar sigurorð af Rússlandi í úrslitaleiknum í íshokkí karla á Vetrarólympíuleikunum í Peking í morgun og tryggði sér þar með sitt fyrsta ólympíugull í greininni í sögunni.

Mikhail Grigorenko kom Rússum, sem leika undir merkjum rússnesku ólympíunefndarinnar, yfir í fyrsta leikhluta áður en Ville Pokka jafnaði metin fyrir Finna í öðrum leikhluta.

Í þriðja og síðasta leikhluta skoraði Hannes Björninen annað mark Finnlands og tryggði liðinu þannig frækinn 2:1-sigur og gullverðlaun.

Finnska karlalandsliðið hafði í tvígang unnið til silfurverðlauna og fjórum sinnum til bronsverðlauna á Vetrarólympíuleikum og sigurinn því ansi kærkominn.

Þetta voru önnur gullverðlaun Finna á leikunum í Peking, sem lauk í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert