Þjóðverjarnir Francesco Friedrich og Johannes Lochner sáu til þess að Þýskaland raðaði sér í efstu tvö sætin í úrslitum fjögurra manna bobsleða karla á Vetrarólympíuleikunum í Peking í nótt.
Friedrich kom fyrstur í mark með sínu liði á 3:54,30 mínútum og Lochner var mjög skammt undan með sínu liði á 3:54,67 mínútum.
Þýskaland vann þar með til gull- og silfurverðlauna og alls komust því átta Þjóðverjar á verðlaunapall.
Kanadabúinn Justin Kripps leiddi þjóð sína til þriðja sætis er hann kom í mark á 3:55,09 mínútum og hársbreidd á eftir honum var þriðja lið Þjóðverja, sem Christoph Hafer leiddi, í fjórða sæti á 3:55,15 mínútum.