„Þessar svefntruflanir byrjuðu á unglingsárunum og þá lendi ég í því að geta ekki sofnað á kvöldin,“ sagði Þuríður Erla Helgadóttir, lyftinga- og crossfitkona, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.
Þuríður Erla, sem er þrítug, byrjaði að æfa lyftingar og crossfit árið 2011 og er hún fremsta lyftingakona landsins í dag.
Hún hefur þurft að takast á við keppniskvíða á sínum ferli, sem og svefnvandamál, sem hafa haft áhrif á gengi hennar á stórmótum.
„Ég á það til að ofhugsa hlutina og ég fór auðvitað strax í það að telja sjálfri mér trú um það að ég yrði að sofna,“ sagði Þuríður Erla.
„Það varð auðvitað til þess að ég sofnaði ekki og ég slökkti til dæmis á öllum klukkum heima hjá mér. Ég mátti heldur ekki heyra nein hljóð og þetta var alveg stórt vandamál.
Þetta var líka vandamál þegar ég eignaðist kærasta því strákar anda svo hátt,“ sagði Þuríður Erla meðal annars.
Viðtalið við Þuríði Erlu í heild sinni má nálgast með því að smella hér.