Djokovic vann í endurkomunni

Novak Djokovic lék vel í Dubai í kvöld.
Novak Djokovic lék vel í Dubai í kvöld. AFP

Serbneski tennisleikarinn Novak Djokovic hafði betur gegn Ítalanum Lorenzo Musetti á móti í Dubai í kvöld. Var þetta fyrsta viðureign Djokovic síðan hann vakti heimsathygli er honum var vísað úr Ástralíu í síðasta mánuði.

Þar með gat hann ekki tekið þátt á opna ástralska mótinu í Melbourne, einu stærsta tennismóti heims. Ástæðan fyrir brottvísun Djokovic úr landi var sú að í Ástralíu er gerð sú krafa að ferðamenn séu bólusettir gegn kórónuveirunni, sem hann er ekki.

Í Dubai í kvöld hafði Djokovic betur gegn Musetti, 6:3 í fyrsta setti og sömuleiðis 6:3 í öðru setti.

Djokovic, sem er efstur á heimslistanum, kvaðst ánægður með að snúa aftur á tennisvöllinn.

„Þetta var ánægjuleg upplifun. Ég hefði ekki getað valið betri stað til þess að koma tímabilinu af stað, þetta var besta mögulega upplifunin í kvöld.

Þegar allt kemur til alls er þetta sigur í tveimur settum þannig að vitanlega verð ég að vera ánægður, sérstaklega eftir að hafa ekki keppt í tvo og hálfan, næstum þrjá mánuði,“ sagði hann í samtali við Amazon Prime eftir sigurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert