Noregur setti met yfir flestar gullmedalíur

Norðmenn voru sigursælastir á Vetrarólympíuleikunum í Peking.
Norðmenn voru sigursælastir á Vetrarólympíuleikunum í Peking. AFP

Noregur bar af á Vetrarólympíuleikunum í Peking sem lauk í gær og vann til flestra gullverðlauna og sömuleiðis til flestra verðlauna í heild sinni á leikunum.

Alls vann Noregur til 16 gullverðlauna á leikunum, sem eru flestar gullmedalíur til handa einnar þjóðar á einum Vetrarólympíuleikum.

Við þetta bættust átta silfurverðlaun og 13 bronsverðlaun og verðlaunin á leikunum því í heild 37, langflest á þeim.

Þýskaland vann næstflest gullverðlaun, 12 talsins, og heimamenn í Kína komu þar á eftir með níu. Bandaríkin, Svíþjóð og Holland unnu öll til átta gullverðlauna.

Þegar litið er til fjölda verðlauna í heild sinni var Noregur sem áður segir með þau langflest og þar á eftir kom Rússland með 32 verðlaun; sex gullverðlaun, 12 silfur og 14 brons.

Í þriðja sæti yfir flest verðlaun var Þýskaland með 27 verðlaun í heildina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert