Ráku Ólympíumeistarann úr keppni

Alexander Zverev barði tennisspaða sínum ítrekað í stól dómarans.
Alexander Zverev barði tennisspaða sínum ítrekað í stól dómarans. AFP

Þýski tennisleikarinn Alexander Zverev fær ekki tækifæri til þess að verja titil sinn í einliðaleik karla á Opna mexíkóska meistaramótinu í tennis sem fram fer í Acapulco eftir að honum var vísað úr keppni á mótinu í vikunni.

Zverev, sem er 24 ára gamall, missti algjörlega hausinn eftir að hafa fallið úr keppni í tvíliðaleik á mótinu ásamt Marcelo Melo en hann barði tennisspaða sínum ítrekað í stól dómarans að leik loknum.

Hann var einnig sektaður um fimm milljónir íslenskra króna fyrir athæfið og þá missir hann einnig af verðlaunafé sínu á mótinu, um 3,8 milljónum íslenskra króna. 

Zverev er sem stendur í þriðja sæti heimslistans, á eftir þeim Danill Medvedev og Novak Djokovic, en Zverev fagnaði sigri í einliðaleik karla á Ólympíuleikunum í Tókýó síðasta sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert