Dönsk stjórnvöld vilja að Rússland verði útilokað frá öllum íþróttum eftir innrás Rússa í Úkraínu sem hófst aðfaranótt fimmtudags. Þetta tilkynnti Ane Halsboe-Jörgensen í samtali við danska miðilinn BT í dag.
Þá ætla Danir að setja pressu á Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar sem snúa að því að Rússar verði útilokaðir frá allri íþróttastarfsemi og kappleikjum.
„Þetta snýst ekki um pólitík, þetta snýst um stríð,“ sagði Halsboe-Jörgensen í samtali við BT.
„Við getum ekki látið þetta viðgangast og það þurfa að vera einhverjar afleiðingar fyrir Rússa. Við förum fram á það við Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar að Rússar fái ekki að taka þátt í neinum íþróttaviðburðum.
Félagslið og landslið Rússland spila undir merkjum lands sem hefur ráðist inn í annað land án tilefnis. Þetta er háalvarlegt mál og við verðum að bregðast við þessu strax,“ bætti Halsboe-Jörgensen við.