Baldvin Þór Magnússon hafnaði í 14. sæti í úrslitum í 3.000 metra hlaupi á heimsmeistaramótinu í frjálsíþróttum innanhúss í Belgrad í Serbíu í gær. Baldvin Þór tók þar fyrstur íslenskra karla þátt í úrslitahlaupi á heimsmeistaramóti.
Baldvin Þór tryggði sér sæti í úrslitunum á föstudaginn þegar hann hljóp á 7:49,34 mínútum og náði þá sjötta besta tímanum af þeim fimmtán keppendum sem komust í úrslit. Í úrslitahlaupinu hafnaði hann hins vegar í síðasta sæti eftir að hafa dregist nokkuð aftur úr bestu hlaupurum heims á lokasprettinum.
Í gær hljóp Akureyringurinn á 8:04,77 mínútum, 17 sekúndum yfir Íslandsmetstíma hans 7:47,51 mínútu og 15 sekúndum yfir tímanum sem hann hljóp á í undanúrslitum. Selemon Barega frá Eþíópíu varð heimsmeistari í hlaupinu á tímanum 7:41,38 mínútur og landi hans Lamecha Girma varð annar á 7:41,63. Þá varð Bretinn Marc Scott þriðji á 7:42,02 mínútum.
„Þetta er búin að vera frábær reynsla og mjög mikilvæg upp á framtíðina, að læra á hvernig þetta allt er og fá að upplifa þetta. Að fá að finna hvernig það er að komast í úrslit og svo að finna hvernig það er að keppa í úrslitum. Þetta var reynsla sem ég læri af,“ sagði Baldvin Þór í samtali við Morgunblaðið.
Spurður hvað hafi valdið svo miklum mun á tímanum í undanúrslitunum og svo úrslitunum sagði hann: „Undanúrslitin voru bara keppni lífs míns og svo er erfitt að koma til baka tveimur dögum seinna og reyna að gera það sama aftur. Þeir sem voru að keppa eru sterkari en ég og ná betri endurheimt eftir svona keppni, þeir geta keppt aftur tveimur dögum seinna. Ég var ekki með það í dag [í gær] enda var ég enn þá með fyrra hlaupið í löppunum.
Sjáðu viðtalið við Baldvin í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins sem kom út í morgun.