Getur ekki verið gott fyrir líkamann

„Þetta heillar mig mjög mikið en á sama tíma hugsa ég líka hvort þetta sé hollt fyrir mig,“ sagði langhlauparinn Andrea Kolbeinsdóttir í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Andrea, sem er 23 ára gömul, er ríkjandi Íslandsmeistari í maraþonhlaupi og þá sló hún brautarmetið í Laugavegshlaupinu síðasta sumar þegar hún kom fyrst í mark á tímanum 4:55 klukkustundum.

Laugavegshlaupið er 55 kílómetrar en Andrea viðurkennir að hún sé farin að horfa á lengri vegalengdir og hlaup, eins og til dæmis Ultra Trail du Mont Blanc þar sem lengst er hlaupið 171 kílómetra með rúmlega 10.000 metra hækkun.

„Ég er náttúrulega að læra um líkamann og svona langhlaup er svakalegt álag á líkamann auðvitað,“ sagði Andrea.

„Ég hugsa oft að þetta geti ekki verið gott fyrir líkamann og fólk hefur sagt mér að ég sé að stytta lífaldur minn með þssum langhlaupum.

Gleðin sem þetta gefur manni bætir það hins vegar upp og jafnar það út,“ sagði Andrea meðal annars.

Viðtalið við Andreu í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert