Íslenska landsliðið í íshokkí vann 10:2-stórsigur á Búlgaríu í opnunarleik B-riðils 2. deildar HM. Riðillinn er haldinn í heild sinni í Reykjavík dagana 18.-23. apríl.
Íslenska liðið mætti til leiks af þvílíkum krafti og tók strax öll völd á vellinum. Liðið uppskar eftir því strax á 4. mínútu leiksins þegar Sölvi Freyr Atlason, leikmaður SR batt endahnútinn á langa sókn. Eftir fyrsta markið tók svo við orrahríð að marki Búlgara. Sókn Íslands var stanslaus en illa gekk að koma pekkinum í netið þrátt fyrir aragrúa af góðum færum. Annað markið kom þó á 14. mínútu þegar Gunnar Aðalgeir Arason leikmaður SA fékk sendingu frá liðsfélaga sínum fyrir norðan, Jóhanni Má Leifssyni, lét vaða af löngu færi og eftir að pökkurinn breytti aðeins um stefnu af varnarmanni söng hann í netinu. Eitthvað virtist íslenska liðið þó slaka á við annað markið því þremur mínútum síðar minnkaði Tomislav Georgiev muninn fyrir Búlgaríu, þvert gegn gangi leiksins. Þrátt fyrir þvílíka yfirburði Íslands í fyrsta leikhlutanum var staðan bara 2:1 að honum loknum.
Yfirburðir Íslands voru langt frá því að minnka í öðrum leikhluta. Þegar sex mínútur voru liðnar af leikhlutanum skoraði Robbie Sigurðsson leikmaður SR þriðja mark Íslands. Hann komst þá einn gegn Dimitrov markmanni Búlgara og skoraði í annarri tilraun. Fjórða markið var svo eftir kunnulegri uppskrift. Jóhann Már Leifsson fann þá Andra Má Mikaelsson sem kláraði glæsilega. Þeir hafa auðvitað verið lykilmenn SA og landsliðsins til fjölda margra ára og þekkjast því betur en flestir í bransanum. Það var svo enn einn Akureyringurinn, Halldór Skúlason sem skoraði fimmta mark Íslands. Hann fékk þá pökkinn vinstra megin á svellinu, dansaði glæsilega framhjá varnarmönnum Búlgaríu og kláraði vel. Axel Orongan, Akureyringurinn í liði SR, skoraði svo sjötta markið. Hann fékk pökkinn fyrir framan markið og gerði engin mistök. Staðan að loknum tveimur leikhlutum því 6:1 Íslandi í vil.
Þriðji leikhluti var í talsvert meira jafnvægi en fyrri tveir en fagmannleg frammistaða Íslands sá til þess að Búlgaría átti aldrei möguleika á að koma sér aftur inn í leikinn. Gestirnir klóruðu reyndar í bakkann þegar 10 mínútur voru eftir þegar Konstantin Dikov skoraði eftir fallega sókn. Björn Róbert Sigurðarson leikmaður SR jafnaði það þó út þegar um fimm mínútur voru eftir af leiknum en lék pekkinum þá framhjá hverjum varnarmanninum á fætur öðrum áður en hann smellti honum í þaknetið algjörlega óverjandi. Jóhann Már Leifsson skoraði svo áttunda mark Íslands þegar um þrjár mínútur voru eftir af leiknum. Liðsfélagi hans úr SA, Hafþór Andri Sigrúnarson átti stoðsendinguna á Jóhann sem kláraði vel. Íslendingar voru ekki hættir en Heiðar Jóhannsson skoraði níunda markið og Robbie Sigurðsson það tíunda. Lokatölur í Laugardalnum því 10:2, þar sem níu Íslendingar skoruðu. Menn leiksins í hvoru liði voru valdnir í leikslok en hjá Búlgaríu var valinn Konstantin Dikov og hjá Íslandi Jóhann Már Leifsson
Ísland hefur því komið sér þægilega fyrir á toppi riðilsins enda bara einum leik lokið. Ásamt Íslandi og Búlgaríu eru í riðlinum Mexíkó, Belgía og Georgía. Næsti leikur Íslands er gegn Georgíu klukkan 16.30 á miðvikudaginn.