Við vissum ekkert um þetta lið

Úr leiknum í dag.
Úr leiknum í dag. Ljósmynd/Stefán Örn Sigurðsson

Maður leiksins þegar Ísland vann Búlgaríu 10:2 í B-riðli 2. deildar HM í íshokkí í dag, Akureyringurinn Jóhann Már Leifsson var ánægður með frammistöðu liðsins. Leikurinn fór fram í skautahöllinni í Laugardal eins og riðillinn í heild sinni en þetta var opnunarleikurinn.

„Þetta var bara fínt. Við vorum hægir af stað en eftir fyrsta leikhlutann kom þetta. Það sást á stigatöflunni.“

HM hefur ekki farið fram í 2 ár en búlgarska liðið kom upp úr þriðju deild á síðasta móti. Jóhann segir liðið hafa verið óþekkta stærð og vissu Íslendingarnir lítið um það.

„Við vissum ekkert um þetta lið. Við höfðum ekki séð nein myndbönd eða neitt svo við vissum ekki alveg hverju við ættum von á.“

Jóhann var eins og áður sagði valinn maður leiksins en hann lagði upp tvö mörk og skoraði sjálfur eitt. Mörkin þrjú sem hann kom að voru öll í samstarfi við liðsfélaga úr Skautafélagi Akureyrar svo mætti segja að uppskriftirnar hafi verið kunnulegar. Aðspurður um samstarf sitt við Andra Má Mikaelsson og Hafþór Andra Sigrúnarson, liðsfélaga sína hjá SA til fjölmargra ára hafði Jóhann þetta að segja:

„Við erum búnir að spila saman í mörg ár. Við vitum alltaf hvert við eigum að setja pökkinn því við vitum alltaf hvert hinir eru að fara. Það er rosalega auðvelt að spila með þeim.“

Jóhann Már Leifsson lyftir einum af mörgum titlum sem hann …
Jóhann Már Leifsson lyftir einum af mörgum titlum sem hann hefur unnið með SA. Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert